Ferill 879. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1818  —  879. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni fjölmiðlanefndar.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir fjölmiðlanefnd?
    Samkvæmt 7. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, er fjölmiðlanefnd sjálfstæð stjórnsýslustofnun sem annast eftirlit með framkvæmd laganna og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til. Hún skal einnig stuðla að því að markmiðum og tilgangi laganna verði náð. Helstu verkefni nefndarinnar eru:
     a.      fylgjast með því að fjölmiðlaveitur fari að fyrirmælum fjölmiðlalaga, taka ákvarðanir í málum samkvæmt þeim og beita viðurlögum þegar við á,
     b.      annast eftirlit með skráningarskyldu og veitingu leyfa til hljóð- og myndmiðlunar og tryggja að lögboðnar upplýsingar um allar fjölmiðlaveitur séu til staðar,
     c.      annast eftirlit með innihaldi og framsetningu hljóð- og myndsendinga í viðskiptaskyni sem og viðskiptaboða í prentmiðlum og rafrænum ritmiðlum,
     d.      efla fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum,
     e.      standa vörð um tjáningarfrelsi og rétt almennings til upplýsinga og sérstaklega stuðla að því að vernd barna sé virt, samkvæmt ákvæðum fjölmiðlalaga,
     f.      fylgjast með stöðu og þróun á fjölmiðlamarkaði og safna upplýsingum þar að lútandi,
     g.      annast samskipti við sambærileg stjórnvöld í öðrum EES-ríkjum og alþjóðastofnanir um málefni á starfsvettvangi sínum.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna fjölmiðlanefndar og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Kostnaði við hvert lögbundið verkefni er ekki deilt niður í fjárlögum, heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum til hvers málefnasviðs og málaflokks. Starfsemi fjölmiðlanefndar fellur undir málefnasvið 19.1 Fjölmiðlun. Fjárheimild fjölmiðlanefndar samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 er 477,1 millj. kr. sem skiptist þannig að 77,1 millj. kr. er varið til starfsemi fjölmiðlanefndar og 400 millj. kr. eru vegna endurgreiðslna til einkarekinna fjölmiðla.